Blár

„Hvar er blár?“ spyr dóttir mín sem á afmæli í mars og þylur þá staðreynd eins og möntru fyrir kindina Dindil milli klukkan átta og níu á kvöldin þegar hún á að vera farin að sofa en er ekki farin að sofa: „Una afmæli MASS.“ Það þótt hún hafi ekki hugmynd um hvað mars er eða hvenær hann kemur.

Við erum að gramsa í litakassanum, sem er holur ljósbleikur kubbur úr Legolandi og hún er nýbúin að segja mér að hún ÆTLI að fá. (Hún ætlar allt þessa dagana: Ætla há mökk – Ég ætla að fá mjólk. Ætla á liglu gísúnar dövvunni – Ég ætla að sjá litlu kisurnar í tölvunni. Ætla há benúna mína – Ég ætla að fá spennuna sem mamma er með í hárinu. Ætla há ona – Ég ætla að fá svona, þegar hlutirnir sem hún ætlar sér fjölga sér hraðar en orðin sem hún á yfir þá. Það er það sem Una gerir. Hún ætlar. Nema þegar hún vill: Vittú ida dólnum – Ég vil sitja í stólnum.)

Ástæðan fyrir því að það er erfitt fyrir mig að svara spurningunni er að bláu litirnir eru tveir – reyndar þrír. Dökkblái vaxliturinn er of líkur svörtum – og reyndar fjólubláum líka – til að hún geti með góðu móti greint hann frá. Þessi ljósblái er hins vegar afbrigðilega ljós miðað við hina litina í settinu og mér finnst ég ekki geta með góðri samvisku gefið henni hann sem viðmið. Flestir bláir tónar sem hún á eftir að rekast á í lífinu eru allt öðruvísi en þessi. Ég vil ekki hætta á að rugla hana í ríminu.

„Hérna blár!“ fullyrðir hún áður en ég er búin að hugsa málið. Æi, hvílík vandræði.

„Já nei, þetta er grænblár,“ útskýri ég. Ég uppsker skilningsvana augnaráð.

„Sjáðu,“ segi ég. „Hérna.“

Hún fylgist áhugasöm með litafletinum birtast á blaðinu.

„Blár!“

„Já, grænblár,“ segi ég, þótt það komi mér á óvart hvað það er lítið grænt í honum. „Og sjáðu, hér kemur ljósblár.“

„Ós blár.“

„Og hér er dökkblár.“

„Ökk blár.“

Ánægja mín með sýnikennsluna dvínar aðeins þegar dökkblái liturinn rennur fullkomlega saman við þann grænbláa á pappírnum. En það kemur ekki að sök því dóttir mín er búin að missa áhugann á litafræðinni og farin að ganga hart að mér að teikna fyrir sig beltisdýr. Til að gera vilja sinn skýrari þrýstir hún græna vaxlitnum fast að bringunni á mér. Græni liturinn er næstum því gulur og sá eini sem heldur uppi nafni sinnar fjölskyldu í litakassanum. Eftir að beltisdýrið er komið á blað breytum við blaðinu í bát og látum hann sigla í vaskinum með playmo-dreng við stýrið. Vaxhúðin gerir það að verkum að hann flýtur mjög vel.

Þegar kvöldmaturinn er búinn og dóttir mín hálf komin í náttfötin hleypur hún ánægð á svip þvert yfir barnaherbergið.

„Fannstu blár!“ tilkynnir hún, af því að hún heldur að annarrar persónu sagnmyndirnar sem við foreldrarnir notum við hana eigi við um hana de re. Hún tekur lokið varlega af fötunni þar sem trékubbarnir eiga heima. Hún og pabbi hennar byggja rosalega turna og geta smíðað hvaða dýr sem er úr kubbunum. Oft eru kubbarnir matur handa óseðjandi dúkkustrák: bláber, brokkolí, piparkökur og plokkfiskur. Kannski hefur hún erft sköpunargáfuna hans pabba síns, kannski er hann að arfleiða hana að henni þegar þau leika sér svona.

Hún lætur ílangan bláan kubb detta ofan í fötuna og lokar vandlega. Svo kemur hún og kastar óendanlega stuttu mjúku handleggjunum sínum um hálsinn á mér.

Leave a comment