Í stórri kistu fullri af hálmi lá vesalings María, hvít eins og obláta og kyrrlát eins og hanski sem höndin hefur verið dregin úr. Og eins og til að færa sér svefn hennar í nyt talaði þögnin: gul, björt illgirnisleg þögnin hóf langt eintal, þrætti og fjargviðraðist hástöfum í ruddalegum langlokustíl. Lífsferill Maríu – hnepptur í svarthol sálar hennar – hafði yfirgefið hana og fyllti nú herbergið djöfullegum glymjanda í morgunkyrrðinni þar sem hann þyrlaðist upp af myllusteinum klukkunnar eins og mjölsáldur og tryllandi duft fyrir brjálæðinga.
Bruno Schulz, Krókódílastrætið. Þýð. Hannes Sigfússon
