Tvö hundruð stundir, myrkur, farþegaskipið Gunnar Myrdal; allt í kringum gamla manninn söng flæðandi vatn dularfullan söng innan í málmpípum. Þar sem skipið skar opinn svartan sjóinn austan af Nova Scotia tók það mjúkar dýfur til hliðar frá stafni til skutar, eins og því væri, þrátt fyrir stórkostlegt stálþrekið, eitthvað órótt og kynni bara að sigrast á vatnsfjöllunum með því að skera hratt í gegnum þau; það var eins og stöðugleiki skipsins væri ekki tryggður nema með því að breiða þannig yfir hryllinginn sem felst í því að fljóta. Því fyrir neðan var önnur veröld – vandamálið snerist um það. Aðra veröld sem hafði rúmtak en enga lögun. Á daginn var sjórinn blátt yfirborð og bárufaldur, raunhæft siglingarviðfangsefni, og þá var hægt að horfa fram hjá vandamálinu. Á nóttunni fór hugurinn hins vegar af stað og stakk sér niður í gegnum þetta eftirgefanlega – þetta argandi einmana – tóm sem þung stálskip sigla ofan á, og í hverri fljótandi öldu gat maður séð afskræmt hnitakerfi, gat maður séð hversu innilega og eilíflega manneskja væri glötuð ef hún endaði sex faðma undir yfirborðinu. Á þurru landi var enginn slíkur z-ás. Að vera á þurru landi var eins og að vera vakandi. Jafnvel þótt maður væri í ókannaðri eyðimörk gat maður alltaf hent sér á hnén og barið jörðina með krepptum hnefa og jörðin myndi ekki gefa eftir. Vissulega hafði hafið líka yfirborð vökunnar. En hver einasti punktur á þessu yfirborði var punktur þar sem hægt var að sökkva og með því að sökkva – hverfa.
Jonathan Franzen, The Corrections
