RÓSA FRÆNKA
Í hermannabúningi, í tréskóm dansaði hún
í byrjun dags og lok dags, Rósa frænka mín.
Eiginmaðurinn bjargaði ófrískri konu
úr brennandi húsi – hann heyrði hlátur,
hver dagur var með sitt litla stórskotalið – í þessum eldsvoða
brenndist hann á kynfærunum. Rósa frænka mín
tók að sér börn annars fólks – hún smellti í góm þegar þau grétu
og ágústmánuður dró tjöldin fyrir kvöld eftir kvöld.
Ég sá hana með krít á milli fingranna,
hún skrifaði glósur á auða töflu,
höndin hreyfðist og taflan var áfram auð.
Við bjuggum í borg við hafið en það var
önnur borg á hafsbotni og enginn nema heimakrakkarnir trúðu á tilvist hennar.
Hún trúið þeim. Hún hengdi mynd af eiginmanninum
á vegg í íbúðinni sinni. Hvern mánuð
á nýjan vegg. Ég sé hana enn fyrir mér með þessa mynd, hamar
í vinstri hendi, nagla uppi í sér.
Úr munninum berst lykt af villtum hvítlauk –
hún nálgast mig í náttfötunum
rífst við mig og sjálfa sig.
Kvöldin eru sönnunargögn mín, þetta kvöld
hún sökkvir höndunum í það upp að olnbogum,
kvöldið er sofandi inni í öxl hennar – öxlin
ávöl af svefni.
Þýð. Sigurður Pálsson