Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk.
Á baksíðu bókarinnar er fullyrt að Þórdís sé einn efnilegasti höfundur landsins. Gagnvart slíkri fullyrðingu um nýjan höfund gæti lesandi fyllst tortryggni en ekki þarf að lesa lengi til að sannfærast um að fullyrðingin stendur vel undir sér. Þórdís hefur greinilega mjög gott vald á tungumálinu, sögur hennar eru frumlegar; alls konar í laginu og misjafnar að lengd, en aðall þeirra er firnasterkt andrúmsloft sem henni tekst að skapa í flestum sagnanna.