Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum eftir Kaveh Akbar

Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum

Orkídeur streyma úr krönunum.

Kötturinn mjálmar orkídeum út um munninn.

Veiðihárin eru líka orkídeur.

Orkídeur blómstra í grasinu.

Bráðum verður það mestmegnis orkídeur.

Trén eru full af orkídeum.

Orkídeur hringsnúast í dekkjarólunni.

Sólarljósið á blautri steypunni er hvít orkídea.

Hjólbarðar bílanna skilja eftir sig slóð af orkídeum.

Orkídeuvöndur líður upp úr púströrinu.

Táningar senda hver öðrum myndir

af orkídeum í símunum sínum, sem eru líka orkídeur.

Gamlir menn í orkídeu-mokkasínum

skiptast ákafir á orkídeum.

Mæður fylla pela af volgum orkídeum

til að gefa krílunum sínum, sem sjálf eru orkídeur.

Hjalið í þeim er eins konar orkídea.

Skýin eru öll orkídeur.

Það rignir orkídeum úr þeim.

Allir veggirnir eru orkídeur,

teketillinn er orkídea,

hvítur striginn er orkídea,

og þessi kuldi er orkídea. Ó,

Lydía, við söknum þín sárt.

 

Þýðing: Þórdís Helgadóttir

Leave a comment