Tíðir

Í lífi hverrar konu eru að minnsta kosti þrjár rykugar götur. Síðan eru það aðrar götur, tómlegar, eins og þessi sem við göngum eftir núna í glimrandi kvöldsólinni þegar skuggarnir eru langir og kaldir. Í gömlu timburhúsi skildi ég eftir pissublautan staut undir pappírsvöndli í ruslafötunni. Það er vor og ég ætla ekki að sleppa burt blóðdropa framar.

En það var sumar þegar ég vaknaði í húsi úr köldum flísum og lærin voru límd saman með rauðu. Það var hádegi þegar ég gekk upp á hæðina til að komast að kirkjunni. Ég beið ósigur í rykugum vegarkanti og þurfti að læra að anda upp á nýtt. Það rigndi þegar við komumst loks til Delfí. Á leiðinni niður fjallið með axlirnar brenndar mættum við manni með asna. Þetta sumar hétu íspinnarnir eftir dauðasyndunum og ég var að borða öfund þegar blóðdropinn féll í rykið.

Það er ein gata enn en ég hugsa helst ekki um hana. Núna er ég að brugga dálítið í blóðinu og bíð eftir kaldasta vetrinum. Þá ætla ég að sprengja heiminn upp, fyrst með hvelli, síðan kjökri, og sjá hann síðan koma út úr mér og kvíslast.

Leave a comment