MÓÐIRIN
Móðir sat hjá barni sínu kornungu. Hún var svo hrygg, svo hrædd um, að það mundi deyja. Það var nábleikt í framan, augun litlu höfðu lokast aftur. Það dró svo hægt andann og var öðru hverju eins og það andvarpaði. Því sorgbitnari horfði móðirin á aumingjann litla.
Þá var barið á dyr og kom inn fátækur maður gamall, og hafði sveipað um sig einhverju, sem var áþekkt stórri hrossverju, sér til hita, enda var honum ekki vanþörf á. Úti var allt þakið ís og fönnum og vindurinn næddi svo napurt, að tók í andlitið.
Af því nú gamalmennið nötraði af kulda og barnunginn blundaði ofurlítið, þá stóð móðirin upp og setti mjólk í dálítilli pönnu inn í ofninn og ætlaði að hita hana handa honum. Gamli maðurinn sat og ruggaði og móðirin settist rétt hjá honum og horfði á barnið sitt sjúka. Það dró svo þungt andann og hélt upp hendinni litlu.
„Heldurðu ekki, að það verði kyrrt hjá mér, barnið mitt?“ sagði hún, „guð fer ekki að taka það frá mér.“
Gamli maðurinn, sem var dauðinn sjálfur, kinkaði kollinum svo undarlega. Það gat bæði þýtt já og nei.
Móðirin horfði í gaupnir sér og tárin hrundu niður eftir kinnum hennar. Hún var yfirkomin af höfuðþyngslum, því henni hafði ekki komið dúr á auga í þrjá sólarhringa, og sofnaði hún nú, en það var aðeins í svip. Hún hrökk upp skjálfandi af kulda. „Hvað er þetta?“ sagði hún og leit á alla vegu frá sér, en gamli maðurinn var farinn og barnið hennar litla var horfið. Hann hafði haft það burt með sér. Úti í stofuhorninu marraði í stundaklukkunni gömlu og blýlóðið rann allt niður á gólf, og þá stóð klukkan.
En vesalings móðirin hljóp út úr húsinu og kallaði á barnið sitt.
Úti í miðri fönninni sat kona síðklædd og svartklædd og mælti: „Dauðinn var inni í stofunni hjá þér, ég sá hvar hann skaust burt með barnið þitt litla. Hann er fljótari en vindurinn. Hann skilar aldrei aftur því, sem hann tekur.“
„Segðu mér bara, hverja leið hann fór,“ mælti móðirin, „segðu mér leiðina, þá skal ég finna hann.“
„Veit ég veginn,“ sagði svartklædda konan. „En áður en ég segi þér hann, verðurðu að syngja fyrir mig allar vísurnar, sem þú hefur sungið fyrir barnið þitt. Mér er yndi að þeim. Ég er nóttin, ég sá hversu þú tárfelldir meðan þú söngst þær.“
„Ég skal syngja þær allar,“ sagði móðirin, „en tefðu mig ekki, svo ég geti náð honum og fundið barnið mitt.“
En nóttin sat þögul og grafkyrr. Þá sló móðirin höndum sínum, söng og táraðist. Margar voru vísurnar, þó voru tárin fleiri. Eftir það sagði nóttin: „Farðu hægra megin inn í greniskóginn dimma. Þangað sá ég dauðann fara með barnið þitt litla.“
Langt inni í skóginum lágu vegirnir á víxl, og vissi hún ekki, hvorn fara skyldi. Þá sá hún, hvar stóð þyrnirunnur blaðlaus og blómlaus. Þetta var líka um hávetur og var ísing á greinunum.
„Hefurðu ekki séð dauðann ganga fyrir með barnið mitt?“ – „Jú!“ svaraði þyrnirunnurinn, „en fyrr segi ég þér ekki, hverja leið hann fór, en þú vermir mig við hjarta þitt. Ég frýs í hel, ég verð að tómum ís.“
Hún þrýsti þyrnirunnanum að brjósti sínu svo fast, að honum gat vel ylnað, og gengu þyrnarnir inn í holdið, svo að blóðið dreyrði í stórum dropum, en þyrnirunnurinn skaut út nýjum og grænum blöðum og blómgaðist um nóttina í vetrarnístingnum, svo var hlýtt við hjarta hinnar mótlættu móður. Og þyrnirunnurinn sagði henni veginn, sem hún átti að fara.
Þá kom hún að miklu hafi, en þar voru hvorki skip né bátar. Sjóinn hafði ekki lagt svo vel, að ísinn héldi, og ekki var hann svo grunnur, að hún gæti vaðið, en yfir hann varð hún að komast, úr því hún vildi finna barnið sitt. Hún lagðist niður til að drekka upp sjóinn, og var það ógjörningur, en móðirin hélt í hörmum sínum, að kraftaverk kynni að verða.
„Nei, þetta tekst aldrei,“ sagði sjórinn, „við skulum heldur koma okkur saman. Mér þykir gaman að safna perlum, og augun þín eru skærustu perlurnar, sem ég hef séð. Viljir þú gráta þeim til mín, þá skal ég bera þig til stóra gróðrarhússins, þar sem dauðinn býr og gætir blóma og trjáa. Hvert þeirra um sig er mannslíf.“
„Æ, allt vil ég vinna til að komast þangað sem barnið mitt er,“ sagði móðirin grátmædda og grét enn sárar, og augu hennar hnigu niður á hafsbotn og urðu að tveimur dýrindis perlum, en sjórinn reið undir hana, og kastaðist hún í einni sveiflu yfir á ströndina fyrir handan. Þar stóð undarlegt hús mílubreitt og var ekki að vita, hvort það væri skógi vaxið fjall með hellisskútum, eða það væri timbrað upp. Aumingja móðirin gat ekki séð það, hún hafði grátið úr sér augun.
„Hvar get ég hitt dauðann, sem fór með barnið mitt litla?“ sagði hún.
„Ekki hefur hann komið hingað ennþá,“ sagði grafkonan gamla, sem gæta átti gróðurhúss dauðans. – Hvernig komstu á veginn hingað og hver hefur hjálpað þér?“
„Guð hefur hjálpað mér,“ svaraði hún, „hann er miskunnsamur og það munt þú vera líka. Hvar get ég fundið barnið mitt litla?“
„Ég þekki það ekki,“ mælti konan, „og þú ert sjónlaus. Fjöldi blóma og trjáa hefur fölnað í nótt. Dauðinn kemur bráðum og gróðursetur þau í nýjum reit. Þú veist víst, að hver maður á sitt lífstré eða sitt blóm, eftir því sem hverjum kann að vera háttað. Þau eru eins á að sjá og hver önnur jurt eða tré, en hjartsláttur er í þeim öllum. Barnahjörtun bærast líka. Eftir þessu skaltu fara. Ekki er að vita, nema þú þekkir hjartsláttinn barnsins þíns, en hvað gefurðu mér til þess, að ég segi þér, hvað þú átt að gera frekar?“
„Ég á ekkert til að gefa,“ ansaði móðirin sorgbitna, „en ég skal ganga á heimsenda fyrir þig.“
„Þangað á ég ekkert að sækja,“ sagði konan, „en þú getur látið mig fá svarta hárið þitt síða. Þú veist sjálf, að það er fallegt, og það á nú við mig. Ég skal láta þig fá hvíta hárið mitt. Það er betra en ekki neitt.“
„Þú mælist þá ekki til meira!“ sagði móðirin, „það er þér velkomið.“ Og hún gaf gömlu konunni fallega hárið sitt, og fékk hárið hennar snjóhvíta í staðinn.
Nú gengu þær inn í hið mikla gróðurhús dauðans. Þar óx fjöldi trjáa og blóma undarlega hvað innan um annað. Þar stóðu fagrar hýasintur undir glerhjálmum, þar stóðu og gildvaxnir píónar. Þar uxu sæjurtir, og voru sumar þeirra mjög svo blómlegar, en aftur var kyrkingur í sumum. Vatnssniglarnir hringuðu sig utan um þær og svartir krabbar læstu sig um stofnana. Þar stóðu fagrir pálmar, eikur, hlynir, pétursseljur og blómgað blóðberg. Hvert tré og hvert blóm átti sér nafn, hvert einstakt merkti mannslíf og voru mennirnir á lífi, sumir á Kínlandi, sumir á Grænlandi og hvarvetna í heiminum. Þar stóðu stór tré í litlum gróðrarkerum, svo að þau máttu eigi þrífast og lá við, að þau sprengdu kerin. Hingað og þangað stóðu líka lítil og leiðinleg blóm í frjóum jarðvegi. Þau voru varin mosa allt í kring, og dekurlega hirt og stunduð. En móðirin harmþrungna laut ofan að öllum minnstu nýgræðingunum og heyrði mannshjörtun bærast í þeim öllum og innan um þúsundir þúsunda þekkti hún hjartsláttinn barnsins síns.
„Þarna er það!“ kallaði hún og seildist með höndina út yfir dálítinn bláan krókus, sem hallaðist út í aðra hliðina og var næsta sjúklegur.
„Snertu ekki blómið,“ sagði gamla konan, „en stattu hérna, og þegar dauðinn kemur – en hans er nú von á hverri stundinni – þá láttu hann ekki kippa jurtinni upp og hótaðu honum, að þú skulir fara eins með hin blómin. Þá verður hann hræddur, því hann á að standa drottni skil á þeim og má ekkert upp slíta fyrri en honum þóknast.“
Í sama bili blés nákaldur þytur eftir endilöngum salnum, og fann móðirin blinda á sér, að það var dauðinn sem kom.
„Hvernig gast þú ratað hingað?“ spurði dauðinn, „hvernig gast þú orðið fljótari en ég?“
„Ég er móðir,“ svaraði hún.
Og dauðinn seildist með sinni löngu hendi eftir blóminu litla og veika, en hún hélt höndunum rígsperrtum utan um það, og var þó hrædd um að hún kynni að koma við blöðin. Þá blés dauðinn á hendur henni, og fann hún, að það var kaldara en vetrarnepjan. Féllust henni þá hendur.
„Þú mátt ekkert við mér,“ sagði dauðinn.
„En guð má við þér,“ sagði hún.
„Ég geri ekki annað en það, sem er hans vilji,“ mælti dauðinn, „ég er hans jurtagarðsmaður. Ég tek öll blóm hans og tré og gróðurset þau í stóra paradísargarðinum á ókunna landinu, en ekki þori ég að segja þér, hvernig þau gróa þar og hvernig þar hagar til.“
„Gefðu mér barnið mitt aftur,“ grátbændi móðirin hann. Í sama bili tók hún utan um tvö fögur blóm, sem stóðu þar rétt hjá, sitt með hvorri hendi, og kallaði til dauðans: „Ég slít upp öll blómin þín, því ég er sturluð af örvæntingu.“
„Snertu ekki á þeim,“ sagði dauðinn. „Þú þykist sjálf vera svo ólánssöm, en nú ætlarðu að gera aðra móður jafn ólánsama.“
„Aðra móður?“ sagði hún og sleppti undir eins blómunum.
„Hérna eru augun þín,“ sagði dauðinn, „ég hef slætt þau upp úr sjónum. Það stóð svo mikil birta af þeim. Ég vissi ekki að það voru augun þín. Taktu við þeim aftur, þau eru skærari núna en þau voru áður. Líttu svo niður í djúpa brunninn rétt hjá þér, og skal ég segja þér nöfnin á báðum blómunum, sem þú ætlaðir að slíta upp. Þú sérð þá ókomna ævi þeirra, allt, sem þú ætlaðir að eyða og ónýta.“
Og hún leit niður í brunninn og var það fagnaðarsjón að sjá, hversu ævi annars barnsins varð blessunarrík fyrir heiminn, hversu það jók auðnu og yndi alls staðar nærri sér. Og hún sá það, sem fyrir hinu barninu lá, og var það ekki annað en böl og bágindi, skelfing og volæði.
„Hvort tveggja er vilji guðs,“ sagði dauðinn.
„Hvort þeirra er blóm ógæfunnar og hvort er blóm blessunarinnar?“ spurði hún.
„Það segi ég þér ekki,“ ansaði dauðinn, „en hitt skaltu vita, að annað þeirra var blómið barnsins þíns. Það voru forlög þess, sem þú sást, – hin ókomna ævi þess.“
Þá hljóðaði móðirin upp yfir sig af ótta. „Hvort þeirra var barnið mitt? segðu mér það. Frelsaðu sakleysingjann, frelsaðu barnið mitt frá öllu þessu volæði. Taktu það heldur burt og flyttu það inn í guðsríki. Gleymdu tárum mínum, gleymdu bænum mínum, gleymdu öllu, sem ég hef sagt eða gert.“
„Ég skil þig ekki,“ mælti dauðinn. „Viltu fá barnið þitt aftur, eða á ég að fara með það þangað, sem þú ekki veist?“
Þá sló móðirin höndum sínum og féll á kné og bað til guðs: „Bænheyr mig ekki, ef ég bið gagnstætt þínum vilja, sem öllum er fyrir bestu, bænheyr mig ekki.“
Og hún drap höfði niður í skaut sér.
Og dauðinn fór með barnið hennar inn í hið ókunna landið.
H.C. Andersen





