Hérna eru augun þín, ég hef slætt þau upp úr sjónum

MÓÐIRIN

Image                                                           Móðirin, Kay Nielsen

Móðir sat hjá barni sínu kornungu. Hún var svo hrygg, svo hrædd um, að það mundi deyja. Það var nábleikt í framan, augun litlu höfðu lokast aftur. Það dró svo hægt andann og var öðru hverju eins og það andvarpaði. Því sorgbitnari horfði móðirin á aumingjann litla.

Þá var barið á dyr og kom inn fátækur maður gamall, og hafði sveipað um sig einhverju, sem var áþekkt stórri hrossverju, sér til hita, enda var honum ekki vanþörf á. Úti var allt þakið ís og fönnum og vindurinn næddi svo napurt, að tók í andlitið.

Af því nú gamalmennið nötraði af kulda og barnunginn blundaði ofurlítið, þá stóð móðirin upp og setti mjólk í dálítilli pönnu inn í ofninn og ætlaði að hita hana handa honum. Gamli maðurinn sat og ruggaði og móðirin settist rétt hjá honum og horfði á barnið sitt sjúka. Það dró svo þungt andann og hélt upp hendinni litlu.

„Heldurðu ekki, að það verði kyrrt hjá mér, barnið mitt?“ sagði hún, „guð fer ekki að taka það frá mér.“

Gamli maðurinn, sem var dauðinn sjálfur, kinkaði kollinum svo undarlega. Það gat bæði þýtt já og nei.

Móðirin horfði í gaupnir sér og tárin hrundu niður eftir kinnum hennar. Hún var yfirkomin af höfuðþyngslum, því henni hafði ekki komið dúr á auga í þrjá sólarhringa, og sofnaði hún nú, en það var aðeins í svip. Hún hrökk upp skjálfandi af kulda. „Hvað er þetta?“ sagði hún og leit á alla vegu frá sér, en gamli maðurinn var farinn og barnið hennar litla var horfið. Hann hafði haft það burt með sér. Úti í stofuhorninu marraði í stundaklukkunni gömlu og blýlóðið rann allt niður á gólf, og þá stóð klukkan.

En vesalings móðirin hljóp út úr húsinu og kallaði á barnið sitt.

Úti í miðri fönninni sat kona síðklædd og svartklædd og mælti: „Dauðinn var inni í stofunni hjá þér, ég sá hvar hann skaust burt með barnið þitt litla. Hann er fljótari en vindurinn. Hann skilar aldrei aftur því, sem hann tekur.“

„Segðu mér bara, hverja leið hann fór,“ mælti móðirin, „segðu mér leiðina, þá skal ég finna hann.“

„Veit ég veginn,“ sagði svartklædda konan. „En áður en ég segi þér hann, verðurðu að syngja fyrir mig allar vísurnar, sem þú hefur sungið fyrir barnið þitt. Mér er yndi að þeim. Ég er nóttin, ég sá hversu þú tárfelldir meðan þú söngst þær.“

„Ég skal syngja þær allar,“ sagði móðirin, „en tefðu mig ekki, svo ég geti náð honum og fundið barnið mitt.“

En nóttin sat þögul og grafkyrr. Þá sló móðirin höndum sínum, söng og táraðist. Margar voru vísurnar, þó voru tárin fleiri. Eftir það sagði nóttin: „Farðu hægra megin inn í greniskóginn dimma. Þangað sá ég dauðann fara með barnið þitt litla.“

Langt inni í skóginum lágu vegirnir á víxl, og vissi hún ekki, hvorn fara skyldi. Þá sá hún, hvar stóð þyrnirunnur blaðlaus og blómlaus. Þetta var líka um hávetur og var ísing á greinunum.

„Hefurðu ekki séð dauðann ganga fyrir með barnið mitt?“ – „Jú!“ svaraði þyrnirunnurinn, „en fyrr segi ég þér ekki, hverja leið hann fór, en þú vermir mig við hjarta þitt. Ég frýs í hel, ég verð að tómum ís.“

Hún þrýsti þyrnirunnanum að brjósti sínu svo fast, að honum gat vel ylnað, og gengu þyrnarnir inn í holdið, svo að blóðið dreyrði í stórum dropum, en þyrnirunnurinn skaut út nýjum og grænum blöðum og blómgaðist um nóttina í vetrarnístingnum, svo var hlýtt við hjarta hinnar mótlættu móður. Og þyrnirunnurinn sagði henni veginn, sem hún átti að fara.

Þá kom hún að miklu hafi, en þar voru hvorki skip né bátar. Sjóinn hafði ekki lagt svo vel, að ísinn héldi, og ekki var hann svo grunnur, að hún gæti vaðið, en yfir hann varð hún að komast, úr því hún vildi finna barnið sitt. Hún lagðist niður til að drekka upp sjóinn, og var það ógjörningur, en móðirin hélt í hörmum sínum, að kraftaverk kynni að verða.

„Nei, þetta tekst aldrei,“ sagði sjórinn, „við skulum heldur koma okkur saman. Mér þykir gaman að safna perlum, og augun þín eru skærustu perlurnar, sem ég hef séð. Viljir þú gráta þeim til mín, þá skal ég bera þig til stóra gróðrarhússins, þar sem dauðinn býr og gætir blóma og trjáa. Hvert þeirra um sig er mannslíf.“

„Æ, allt vil ég vinna til að komast þangað sem barnið mitt er,“ sagði móðirin grátmædda og grét enn sárar, og augu hennar hnigu niður á hafsbotn og urðu að tveimur dýrindis perlum, en sjórinn reið undir hana, og kastaðist hún í einni sveiflu yfir á ströndina fyrir handan. Þar stóð undarlegt hús mílubreitt og var ekki að vita, hvort það væri skógi vaxið fjall með hellisskútum, eða það væri timbrað upp. Aumingja móðirin gat ekki séð það, hún hafði grátið úr sér augun.

„Hvar get ég hitt dauðann, sem fór með barnið mitt litla?“ sagði hún.

„Ekki hefur hann komið hingað ennþá,“ sagði grafkonan gamla, sem gæta átti gróðurhúss dauðans. – Hvernig komstu á veginn hingað og hver hefur hjálpað þér?“

„Guð hefur hjálpað mér,“ svaraði hún, „hann er miskunnsamur og það munt þú vera líka. Hvar get ég fundið barnið mitt litla?“

„Ég þekki það ekki,“ mælti konan, „og þú ert sjónlaus. Fjöldi blóma og trjáa hefur fölnað í nótt. Dauðinn kemur bráðum og gróðursetur þau í nýjum reit. Þú veist víst, að hver maður á sitt lífstré eða sitt blóm, eftir því sem hverjum kann að vera háttað. Þau eru eins á að sjá og hver önnur jurt eða tré, en hjartsláttur er í þeim öllum. Barnahjörtun bærast líka. Eftir þessu skaltu fara. Ekki er að vita, nema þú þekkir hjartsláttinn barnsins þíns, en hvað gefurðu mér til þess, að ég segi þér, hvað þú átt að gera frekar?“

„Ég á ekkert til að gefa,“ ansaði móðirin sorgbitna, „en ég skal ganga á heimsenda fyrir þig.“

„Þangað á ég ekkert að sækja,“ sagði konan, „en þú getur látið mig fá svarta hárið þitt síða. Þú veist sjálf, að það er fallegt, og það á nú við mig. Ég skal láta þig fá hvíta hárið mitt. Það er betra en ekki neitt.“

„Þú mælist þá ekki til meira!“ sagði móðirin, „það er þér velkomið.“ Og hún gaf gömlu konunni fallega hárið sitt, og fékk hárið hennar snjóhvíta í staðinn.

Nú gengu þær inn í hið mikla gróðurhús dauðans. Þar óx fjöldi trjáa og blóma undarlega hvað innan um annað. Þar stóðu fagrar hýasintur undir glerhjálmum, þar stóðu og gildvaxnir píónar. Þar uxu sæjurtir, og voru sumar þeirra mjög svo blómlegar, en aftur var kyrkingur í sumum. Vatnssniglarnir hringuðu sig utan um þær og svartir krabbar læstu sig um stofnana. Þar stóðu fagrir pálmar, eikur, hlynir, pétursseljur og blómgað blóðberg. Hvert tré og hvert blóm átti sér nafn, hvert einstakt merkti mannslíf og voru mennirnir á lífi, sumir á Kínlandi, sumir á Grænlandi og hvarvetna í heiminum. Þar stóðu stór tré í litlum gróðrarkerum, svo að þau máttu eigi þrífast og lá við, að þau sprengdu kerin. Hingað og þangað stóðu líka lítil og leiðinleg blóm í frjóum jarðvegi. Þau voru varin mosa allt í kring, og dekurlega hirt og stunduð. En móðirin harmþrungna laut ofan að öllum minnstu nýgræðingunum og heyrði mannshjörtun bærast í þeim öllum og innan um þúsundir þúsunda þekkti hún hjartsláttinn barnsins síns.

„Þarna er það!“ kallaði hún og seildist með höndina út yfir dálítinn bláan krókus, sem hallaðist út í aðra hliðina og var næsta sjúklegur.

„Snertu ekki blómið,“ sagði gamla konan, „en stattu hérna, og þegar dauðinn kemur – en hans er nú von á hverri stundinni – þá láttu hann ekki kippa jurtinni upp og hótaðu honum, að þú skulir fara eins með hin blómin. Þá verður hann hræddur, því hann á að standa drottni skil á þeim og má ekkert upp slíta fyrri en honum þóknast.“

Í sama bili blés nákaldur þytur eftir endilöngum salnum, og fann móðirin blinda á sér, að það var dauðinn sem kom.

„Hvernig gast þú ratað hingað?“ spurði dauðinn, „hvernig gast þú orðið fljótari en ég?“

„Ég er móðir,“ svaraði hún.

Og dauðinn seildist með sinni löngu hendi eftir blóminu litla og veika, en hún hélt höndunum rígsperrtum utan um það, og var þó hrædd um að hún kynni að koma við blöðin. Þá blés dauðinn á hendur henni, og fann hún, að það var kaldara en vetrarnepjan. Féllust henni þá hendur.

„Þú mátt ekkert við mér,“ sagði dauðinn.

„En guð má við þér,“ sagði hún.

„Ég geri ekki annað en það, sem er hans vilji,“ mælti dauðinn, „ég er hans jurtagarðsmaður. Ég tek öll blóm hans og tré og gróðurset þau í stóra paradísargarðinum á ókunna landinu, en ekki þori ég að segja þér, hvernig þau gróa þar og hvernig þar hagar til.“

„Gefðu mér barnið mitt aftur,“ grátbændi móðirin hann. Í sama bili tók hún utan um tvö fögur blóm, sem stóðu þar rétt hjá, sitt með hvorri hendi, og kallaði til dauðans: „Ég slít upp öll blómin þín, því ég er sturluð af örvæntingu.“

„Snertu ekki á þeim,“ sagði dauðinn. „Þú þykist sjálf vera svo ólánssöm, en nú ætlarðu að gera aðra móður jafn ólánsama.“

„Aðra móður?“ sagði hún og sleppti undir eins blómunum.

„Hérna eru augun þín,“ sagði dauðinn, „ég hef slætt þau upp úr sjónum. Það stóð svo mikil birta af þeim. Ég vissi ekki að það voru augun þín. Taktu við þeim aftur, þau eru skærari núna en þau voru áður. Líttu svo niður í djúpa brunninn rétt hjá þér, og skal ég segja þér nöfnin á báðum blómunum, sem þú ætlaðir að slíta upp. Þú sérð þá ókomna ævi þeirra, allt, sem þú ætlaðir að eyða og ónýta.“

Og hún leit niður í brunninn og var það fagnaðarsjón að sjá, hversu ævi annars barnsins varð blessunarrík fyrir heiminn, hversu það jók auðnu og yndi alls staðar nærri sér. Og hún sá það, sem fyrir hinu barninu lá, og var það ekki annað en böl og bágindi, skelfing og volæði.

„Hvort tveggja er vilji guðs,“ sagði dauðinn.

„Hvort þeirra er blóm ógæfunnar og hvort er blóm blessunarinnar?“ spurði hún.

„Það segi ég þér ekki,“ ansaði dauðinn, „en hitt skaltu vita, að annað þeirra var blómið barnsins þíns. Það voru forlög þess, sem þú sást, – hin ókomna ævi þess.“

Þá hljóðaði móðirin upp yfir sig af ótta. „Hvort þeirra var barnið mitt? segðu mér það. Frelsaðu sakleysingjann, frelsaðu barnið mitt frá öllu þessu volæði. Taktu það heldur burt og flyttu það inn í guðsríki. Gleymdu tárum mínum, gleymdu bænum mínum, gleymdu öllu, sem ég hef sagt eða gert.“

„Ég skil þig ekki,“ mælti dauðinn. „Viltu fá barnið þitt aftur, eða á ég að fara með það þangað, sem þú ekki veist?“

Þá sló móðirin höndum sínum og féll á kné og bað til guðs: „Bænheyr mig ekki, ef ég bið gagnstætt þínum vilja, sem öllum er fyrir bestu, bænheyr mig ekki.“

Og hún drap höfði niður í skaut sér.

Og dauðinn fór með barnið hennar inn í hið ókunna landið.

H.C. Andersen

Quote

Hugmyndafræðin um að opna út


A three-toed tree sloth hangs from the trunk of a tree in the jungle on the bank of the Panama Canal

Vertu opin fyrir sjónarmiði annarra. Næst þegar einhver segir þér eitthvað sem þú trúir ekki eða ert ósammála prófaðu að gefa sjálfri þér tækifæri til að ímynda þér að það sé satt. Þetta er næstum því eins og þú gerðir þegar þú varst lítil: hugsaðu þér að það væru til ímyndaðir heimar eða að tannálfurinn sé til. Breyttu bara um stillingu á eyrunum og heilanum, stilltu af „örugglega ekki“ yfir á „kannski“. Þegar þú tekur eftir því að þú ert að hafna einhverju fyrirfram, hættu því þá og gefðu sjálfri þér leyfi til þess að prófa að ímynda þér annað sjónarmið. Sama hvað heilinn streitist mikið á móti.

Ástundaðu að vera opin

Quote

Verkjalyf við ótta og illsku

blue_red_pill3

Then in a similar, separate experiment, they primed the subjects by having them watch video clips. They either watched The Simpsons or a film by surrealistic neonoir writer/director David Lynch, in which humans with rabbit heads wander an urban apartment muttering non sequiturs. They then passed judgement on people arrested in a hockey riot. Again, the people in the existential mindset imposed harsh sanctions, but the people who’d watched The Simpsons were lenient. If they’d taken Tylenol first, though, the David Lynch-induced anxiety was apparently blunted. They recommended the same sanctions as the Simpsons-primed group.

James Hamblin, “What’s Tylenol doing to our minds?”

Quote

Nótt á sumarauka

Gamla sagan, Bruno Schulz 1920-22

Gamla sagan, Bruno Schulz 1920-22

Það er á allra vitorði að stundum ber við í rás hversdagslegra og viðburðasnauðra ára að hinn mikli sérvitringur, Tíminn, geti af sér önnur ár, frábrugðin, örlát ár sem auka við sig þrettánda mánuðinum líkt og sjöttu tá á fæti af einskærum duttlungum.Við nefnum duttlunga af ráðnum huga, enda nær þrettándi mánuðurinn sjaldan fullum þroska. Eins og barn fætt af roskinni móður er hann rýr að vexti. Hann er örverpi Tímans, hálfvisinn sproti, fremur hugmynd en veruleiki.

Sök á þessu fyrirbæri eiga sumur sem hrörna fyrir aldur fram, en þrjóskast við í lostafullum dauðateygjum. Stundum ber við að ágúst sé liðinn til loka og þó haldi gamall og gildur stofnreður sumarsins áfram að geta af sér afkvæmi af gömlum vana og úr morknum viði hans spretti svokallaðir krabbadagar, illgresisdagar – þessi geldingslegu viðrini sem getin eru líkt og af hálfum huga: kyrkingslegir, tómlegir og einskisnýtir dagar – hvítir dagar sem virðast ævinlega furðu lostnir og eru gjörsamlega út í hött. Þeir spretta óreglulega og á misháum stönglum, eru formlausir og þó samstæðir líkt og fingur á hendi vanskapnings, stúfar krepptir í hnefa.

Sumir líkja þessum dögum við apókrýfur, leynilegan texta sem lætt er inn milli kaflanna í höfuðbók ársins – einskonar steinprent sem skotið hefur verið milli blaðsíðna – líkja þeim við hvítar óprentaðar arkir sem augu full af lesmáli og minnug sköpulags orða geta þakið ímynduðum litum og myndum sem smám saman blikna á auðum síðunum, ellegar notið hlutlausrar hvíldar áður en haldið er áfram að vænast nýrra ævintýra af nýjum köflum

Æ þessi gamla glunaða rómantík árstíðanna, þessi þykki og lúði almanaksdoðrant! Hann hírist einhversstaðar gleymdur og grafinn í skjalasafni Tímans, og innihaldið vex milli spjaldanna, þrútnar stöðugt af málæði nýrra mánaða, af sífrjórri lygi og slúðursögum, og af draumum sem stöðugt auka kyn sitt. Og þegar ég færi þessi ævintýri í letur, þessar endurskoðuðu frásagnir af föður mínum á margnotaðar spássíur textans, skyldi ég þá ekki ala þá lendu von í brjósti að þær muni eitt sinn hverfa að fullu niður í gulnandi síður þessarar glæstu og lúðu bókar, að þær muni sökkva í hljóðlátt skrjáf blaðanna og verða þar að engu?

Gínurnar

Stilla úr Krókódílastræti eftir Quay bræður

Stilla úr Krókódílastræti eftir Quay bræður

„Skaparinn,“ sagði faðir minn, „hafði ekki einkarétt á því að skapa, því sköpunarkrafturinn er öllum öndum gefinn. Efnið er gætt takmarkalausri frjósemi, óþrotlegum lífskrafti, og jafnframt seiðmögnuðum hæfileika til að freista okkar til frekari sköpunar. Í djúpum efnisins leynast ógreinilegar brosviprur, þar magnast spenna, og frumgerðir sköpunar myndast. Allur efnismassinn er þrunginn óendanlegum möguleikum sem fara um hann leyndum hrolli. Hann er allur á iði þar sem hann bíður eftir lífsanda skapara síns, á stöðugri hreyfingu. Hann freistar okkar með þúsundum hugljúfra og ávalra mjúkra forma sem hann í blindni sinni dreymir um.

[…]

„Efnið er auðsveipast og varnarlausast af öllu sköpunarverkinu. Allir geta elt það og mótað. Það lýtur vilja okkar allra. Þó verður það ekki mótað í eitt skipti fyrir öll, það tekur breytingum og fer auðveldlega úr böndunum. Ekkert neikvætt felst í því að breyta lífi í ný og óæðri form. Að myrða er ekki synd. Stundum er það nausynleg valdbeiting gagnvart þrjóskum og steinrunnum lífsformum sem maður hefur ekki lengur gaman af.”

Krókódílastræti – Bruno Szhulz

Krókódílastrætið

Bruno Schulz, sjálfsmynd, án dagsetningar

Bruno Schulz, sjálfsmynd, án dagsetningar

Í stórri kistu fullri af hálmi lá vesalings María, hvít eins og obláta og kyrrlát eins og hanski sem höndin hefur verið dregin úr. Og eins og til að færa sér svefn hennar í nyt talaði þögnin: gul, björt illgirnisleg þögnin hóf langt eintal, þrætti og fjargviðraðist hástöfum í ruddalegum langlokustíl. Lífsferill Maríu – hnepptur í svarthol sálar hennar – hafði yfirgefið hana og fyllti nú herbergið djöfullegum glymjanda í morgunkyrrðinni þar sem hann þyrlaðist upp af myllusteinum klukkunnar eins og mjölsáldur og tryllandi duft fyrir brjálæðinga.

Bruno Schulz, Krókódílastrætið. Þýð. Hannes Sigfússon

Blár

„Hvar er blár?“ spyr dóttir mín sem á afmæli í mars og þylur þá staðreynd eins og möntru fyrir kindina Dindil milli klukkan átta og níu á kvöldin þegar hún á að vera farin að sofa en er ekki farin að sofa: „Una afmæli MASS.“ Það þótt hún hafi ekki hugmynd um hvað mars er eða hvenær hann kemur.

Við erum að gramsa í litakassanum, sem er holur ljósbleikur kubbur úr Legolandi og hún er nýbúin að segja mér að hún ÆTLI að fá. (Hún ætlar allt þessa dagana: Ætla há mökk – Ég ætla að fá mjólk. Ætla á liglu gísúnar dövvunni – Ég ætla að sjá litlu kisurnar í tölvunni. Ætla há benúna mína – Ég ætla að fá spennuna sem mamma er með í hárinu. Ætla há ona – Ég ætla að fá svona, þegar hlutirnir sem hún ætlar sér fjölga sér hraðar en orðin sem hún á yfir þá. Það er það sem Una gerir. Hún ætlar. Nema þegar hún vill: Vittú ida dólnum – Ég vil sitja í stólnum.)

Ástæðan fyrir því að það er erfitt fyrir mig að svara spurningunni er að bláu litirnir eru tveir – reyndar þrír. Dökkblái vaxliturinn er of líkur svörtum – og reyndar fjólubláum líka – til að hún geti með góðu móti greint hann frá. Þessi ljósblái er hins vegar afbrigðilega ljós miðað við hina litina í settinu og mér finnst ég ekki geta með góðri samvisku gefið henni hann sem viðmið. Flestir bláir tónar sem hún á eftir að rekast á í lífinu eru allt öðruvísi en þessi. Ég vil ekki hætta á að rugla hana í ríminu.

„Hérna blár!“ fullyrðir hún áður en ég er búin að hugsa málið. Æi, hvílík vandræði.

„Já nei, þetta er grænblár,“ útskýri ég. Ég uppsker skilningsvana augnaráð.

„Sjáðu,“ segi ég. „Hérna.“

Hún fylgist áhugasöm með litafletinum birtast á blaðinu.

„Blár!“

„Já, grænblár,“ segi ég, þótt það komi mér á óvart hvað það er lítið grænt í honum. „Og sjáðu, hér kemur ljósblár.“

„Ós blár.“

„Og hér er dökkblár.“

„Ökk blár.“

Ánægja mín með sýnikennsluna dvínar aðeins þegar dökkblái liturinn rennur fullkomlega saman við þann grænbláa á pappírnum. En það kemur ekki að sök því dóttir mín er búin að missa áhugann á litafræðinni og farin að ganga hart að mér að teikna fyrir sig beltisdýr. Til að gera vilja sinn skýrari þrýstir hún græna vaxlitnum fast að bringunni á mér. Græni liturinn er næstum því gulur og sá eini sem heldur uppi nafni sinnar fjölskyldu í litakassanum. Eftir að beltisdýrið er komið á blað breytum við blaðinu í bát og látum hann sigla í vaskinum með playmo-dreng við stýrið. Vaxhúðin gerir það að verkum að hann flýtur mjög vel.

Þegar kvöldmaturinn er búinn og dóttir mín hálf komin í náttfötin hleypur hún ánægð á svip þvert yfir barnaherbergið.

„Fannstu blár!“ tilkynnir hún, af því að hún heldur að annarrar persónu sagnmyndirnar sem við foreldrarnir notum við hana eigi við um hana de re. Hún tekur lokið varlega af fötunni þar sem trékubbarnir eiga heima. Hún og pabbi hennar byggja rosalega turna og geta smíðað hvaða dýr sem er úr kubbunum. Oft eru kubbarnir matur handa óseðjandi dúkkustrák: bláber, brokkolí, piparkökur og plokkfiskur. Kannski hefur hún erft sköpunargáfuna hans pabba síns, kannski er hann að arfleiða hana að henni þegar þau leika sér svona.

Hún lætur ílangan bláan kubb detta ofan í fötuna og lokar vandlega. Svo kemur hún og kastar óendanlega stuttu mjúku handleggjunum sínum um hálsinn á mér.