Brjálæðislega skemmtilegt háð

Lofsamlegur dómur um Keisaramörgæsir í Kiljunni:

Mér finnst í gegnum bókina vera eins konar íhugun um meðal annars neysluhyggjuna og um það á hvaða leið mannsskepnan er. Það er svona heimsendafílingur í sumu í bókinni. Þetta er hugmyndaríkur höfundur, hún hefur gaman að þessu. Ég spái vel fyrir henni sem höfundi.
Sigurður Valgeirsson

Hún á að halda áfram að skrifa, það er alveg ljóst.
Kolbrún Bergþórsdóttir

Brjálæðislega skemmtilegt háð.
Egill Helgason

Umfjöllun Kiljunnar má sjá hér

Tímamót?

Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk.

Á baksíðu bókarinnar er fullyrt að Þórdís sé einn efnilegasti höfundur landsins. Gagnvart slíkri fullyrðingu um nýjan höfund gæti lesandi fyllst tortryggni en ekki þarf að lesa lengi til að sannfærast um að fullyrðingin stendur vel undir sér. Þórdís hefur greinilega mjög gott vald á tungumálinu, sögur hennar eru frumlegar; alls konar í laginu og misjafnar að lengd, en aðall þeirra er firnasterkt andrúmsloft sem henni tekst að skapa í flestum sagnanna.

Soffía Auður Birgisdóttir á skald.is

Keisaramörgæsir í Hve glötuð er vor æska?

Það styttist í að Keisaramörgæsir líti dagsins ljós. Ég var lengi í vafa um titilinn en þegar hann var einu sinni kominn þá var hann bara kominn og ég gat ekkert haggað honum. Mig dreymir um að vera einn af þessum höfundum sem koma með neglu-titla í hvert einasta skipti en það er eins og ég tæmi sköpunarkraftinn alltaf í textann og eigi svo ekkert eftir fyrir titilinn. Kannski er galdurinn að læra að taka titilinn alvarlega sem listaverk í sjálfum sér. En bókin heitir alla vega það sem hún heitir og á dögunum fór ég í stutt viðtal við Þorvald S. Helgason og kynnti hana í fyrsta skipti á opinberum vettvangi í þættinum Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll.

Hér er viðtalið. Ég spjalla um bókina, formið og uppáhalds-smásagnahöfundinn minn við Þorvald og Fríðu Ísberg svikaskáld, og gef forsmekk af sögu sem heitir „Leg“. (Titill sem ég er reyndar nokkuð ánægð með.) Annar uppáhaldshöfundur, Kristín Eiríksdóttir, er líka tekin tali í þættinum. Smásögur eru kúl. Hlustið!