Ilya Kaminsky

RÓSA FRÆNKA

Í hermannabúningi, í tréskóm dansaði hún
í byrjun dags og lok dags, Rósa frænka mín.
Eiginmaðurinn bjargaði ófrískri konu

úr brennandi húsi – hann heyrði hlátur,
hver dagur var með sitt litla stórskotalið – í þessum eldsvoða
brenndist hann á kynfærunum. Rósa frænka mín

tók að sér börn annars fólks – hún smellti í góm þegar þau grétu
og ágústmánuður dró tjöldin fyrir kvöld eftir kvöld.
Ég sá hana með krít á milli fingranna,

hún skrifaði glósur á auða töflu,
höndin hreyfðist og taflan var áfram auð.
Við bjuggum í borg við hafið en það var

önnur borg á hafsbotni og enginn nema heimakrakkarnir trúðu á tilvist hennar.
Hún trúið þeim. Hún hengdi mynd af eiginmanninum

á vegg í íbúðinni sinni. Hvern mánuð
á nýjan vegg. Ég sé hana enn fyrir mér með þessa mynd, hamar
í vinstri hendi, nagla uppi í sér.

Úr munninum berst lykt af villtum hvítlauk –
hún nálgast mig í náttfötunum
rífst við mig og sjálfa sig.

Kvöldin eru sönnunargögn mín, þetta kvöld
hún sökkvir höndunum í það upp að olnbogum,
kvöldið er sofandi inni í öxl hennar – öxlin

ávöl af svefni.

Þýð. Sigurður Pálsson

Keisaramörgæsir í Hve glötuð er vor æska?

Það styttist í að Keisaramörgæsir líti dagsins ljós. Ég var lengi í vafa um titilinn en þegar hann var einu sinni kominn þá var hann bara kominn og ég gat ekkert haggað honum. Mig dreymir um að vera einn af þessum höfundum sem koma með neglu-titla í hvert einasta skipti en það er eins og ég tæmi sköpunarkraftinn alltaf í textann og eigi svo ekkert eftir fyrir titilinn. Kannski er galdurinn að læra að taka titilinn alvarlega sem listaverk í sjálfum sér. En bókin heitir alla vega það sem hún heitir og á dögunum fór ég í stutt viðtal við Þorvald S. Helgason og kynnti hana í fyrsta skipti á opinberum vettvangi í þættinum Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll.

Hér er viðtalið. Ég spjalla um bókina, formið og uppáhalds-smásagnahöfundinn minn við Þorvald og Fríðu Ísberg svikaskáld, og gef forsmekk af sögu sem heitir „Leg“. (Titill sem ég er reyndar nokkuð ánægð með.) Annar uppáhaldshöfundur, Kristín Eiríksdóttir, er líka tekin tali í þættinum. Smásögur eru kúl. Hlustið!

Vot egg

Óróinn inni í mér er eins og öldur í vöðvunum, eins og hálfur draumur. Hugurinn er farfugl sem flýgur aftur á gömlu varpstöðvarnar hvert einasta vor og endar alltaf með olíubrákaðar fjaðrir og blóðug sundfit.

Hugurinn er sjófugl með magann fullan af plasti. Hvað þykist ég vera að gera? Byggja hreiður, lokka greyið á nýja staði, plata hann til að venja komur sínar þangað sem einhverja næringu er að fá.

Á hlýrri stað, hvers vegna ekki? Í regnskóginum erum við nakin og svitablaut og heit inn að beini. Litirnir eru heitir og djúpir og veggirnir lifandi. Það er hann sem við þráum í gegnum þurrt veggfóðrið í mínímalískum íbúðum. Við höfum tekið upp á því að prenta rifblöðkur á hvaðeina. Dýfum hönd í blómapotta til að finna hvernig moldin gerist heit af örverum.

Sjálf erum við appelsínugul blóm utan um brennsluofna. Spendýrin í regnskóginum eru sífellt á ferli í leit að einhverju til að tortíma, æti. Stór pýþonslanga lætur sér duga eina máltíð á ári. Sólin klekur út eggjunum fyrir hana og þegar jörðin verður orðin ein eyðimörk pólanna á milli verður það hún sem erfir landið. Rétt eins og fyrri daginn.

Growing Season – Anne Thériault

Anne Thériault á það til að skrifa betur um þunglyndi en nokkur annar.

Hér er Growing Season:

“My second impulse was to throw the plants out and start again, the way I desperately wished I could start again on myself. I decided that I would dump them in the garbage when no one was looking, and plant another window sill nursery, except this time I would do everything perfectly. What, exactly, I meant by “perfectly” was incredibly vague, and the only item on the to-do list of how to be perfect was “accept zero mistakes”.”

gutsmagazine.ca/growing-season/

Mold allra meginlandanna

Mamma mun sjá eftir öllu saman
við skulum éta mold allra meginlandanna
og þá sér hún eftir öllu saman þegar
við springum

Að klæða okkur í notað:
misvel farin andlit, kjagaða skó
og ódýrustu
stökkustu
beinin

Pabbi gefur okkur nýtt þegar hann kemur
segir þú
bróðir

Troðfullur af salti því þú getur ekki grátið
söngröddin þín vaggandi í Golfstraumnum
fingrafarið þitt á tunglinu en hafsbotninn
ósnertanlegur eins og gyðja

eða hóra

Mamma þín saknar þín

Ljóð í lok vikunnar: Síðan tók það skeið enda

Síðan tók það skeið enda

 

Véfréttin er miðaldra kona með sigin brjóst
undir blússunni, eins og alltaf

Hún ýtir sófanum frá veggnum
og smalar okkur inn, systur á eftir systur

Í keðju, handfljót vindur hún okkur
eins og naflastreng af hálsi

Inni í göngunum seytlar svartolía
Uppi brenna borpallarnir ásamt þeim

sem hlekkjuðu sig þar. Allar eru hér,
þekkjast á flúruðum kvið og sviðnum iljum

Þegar ljós kemur í opið látum við ropa
setjum kálblöð á brjóst hver annarrar

Vel heppnuð aðgerð, kortlögð í leyni
í lúsapóstum og saumaklúbbum

Heilu hillurnar í bókasöfnum heimsins
merktar fæðingarundirbúningur

Skuggalönd

Pandóruþyrpingin

Á endanum hvikarðu frá öllu sem þú trúir.

Þú dregur aldrei í efa yfirráðarétt hverrar konu yfir eigin líkama. En í tólf vikna sónar fylgistu með fóstrinu synda um inni í þér og þú veist að þú myndir aldrei.

Óhugsandi hlutir eiga eftir að gerast. Þú ferð í tólf vikna sónar seinna, eftir nokkur ár, og sérð ekkert nema myrkur á skjánum. Þú syrgir. Þér batnar.

Þú hefur ekki lengur þolinmæði fyrir heiminum eins og hann hefur verið teiknaður upp af körlum. Eðlishyggja er ennþá blótsyrði í þínum munni. En núna snýrðu þér að konunum í lífi þínu. Þær hafa alltaf beðið eftir þér. Þú lærir að hlæja hjartanlega.

Þú átt eftir að vakna upp af ævilangri blekkingu um að þú getir ekki mjög mikið. Þú ert hrædd við að fæða. Þú ert hrædd við deyfingar, keisara, og að missa af. En ekkert af þessu er eins og þú heldur. Þetta eru ekki bjargbrúnir að hrapa af heldur vegalengd sem þú leggur að fótum þér. Hlæjandi og með blóðuga fætur. Þú þolir ekkert svona andlegt. En samt umbreytistu í goðmagn. Sársaukinn er ekkert fyrir þér. Héðan í frá spyrðu aldrei aftur höfuðið að því hvað þú getir. Þú spyrð líkamann. Þú spyrð legið.

Svarið er: Allt.

Þú þolir ekkert svona andlegt. En þarna ertu, að fjölfalda heiminn. Það er kraftur í þér sem gerir sprungu í tímarúmið og hleypir inn ljósi, skapar eitthvað svo fáránlega nýtt. Þú þolir ekkert andlegt. En þarna ertu: bókstafleg brú á milli lífsins og stóra tómarúmsins hinum megin.

Þau verða svo mjúk. Svo lítil að þau geta kúrt sig í handarkrikanum á þér. Úr fíngerðara efni en allir aðrir hlutir. Augun í þeim verða dimm og vitur til að byrja með. Síðan læra þau að brosa. Þeim vex hár og það verður eins og spunnið gull. Á einhvern óútskýranlegan hátt stafar birtu frá andlitinu, meira að segja í myrkri. Þau hjúfra sig og hvíla kollinn á öxlinni á þér. Leggja á þig blessun. Þú getur ekki hætt að undrast. Eitthvað fullkomlega gott er til í heiminum. Og þú bjóst það til.

Þau ætlast til alls af þér. Þau grípa í hárið á þér með músargreipunum sínum úr stáli. Augnaráðið er óttalaust. Þau eru einn stór vilji. Þau efast ekki um sjálf sig. Þau efast ekki um tilkall sitt til heimsins. Þau efast ekki um þig. Þau ætlast til alls af þér. Þau eru ágeng. Þau gera ekki málamiðlun. Treystu þeim.

Þessir dagar, sem eru ár, þeir eru skuggalöndin þeirra. Goðsögulegur tími þar sem risar arka um jörðina. Gleymdur tími svo nálægt upprunanum að náttúrulögmálin eru ekki farin að taka á sig mynd. Allt flöktir, allt er enn mögulegt. Frumefnin sveima um eins og þau eigi aldrei eftir að þéttast og breytast í eitthvað fast. En alls staðar þú: Móðirin. Utan við heiminn og samt blönduð við allt. Þú manst, það er þitt hlutverk. Manst Miklahvell, fyrsta andardráttinn og gulan brodd sem var það fyrsta sem þú gafst þeim. Þú manst skuggadagana, gleymda tímann sem börnin geyma í sér. Það er hluti af þeim sem þú þekkir en þau ekki. Hvað getur maður sagt?

Velkomin, systir. Þetta verður eitthvað.

– Birtist upprunalega í Öldu, tímariti um móðurhlutverkið