
Á endanum hvikarðu frá öllu sem þú trúir.
Þú dregur aldrei í efa yfirráðarétt hverrar konu yfir eigin líkama. En í tólf vikna sónar fylgistu með fóstrinu synda um inni í þér og þú veist að þú myndir aldrei.
Óhugsandi hlutir eiga eftir að gerast. Þú ferð í tólf vikna sónar seinna, eftir nokkur ár, og sérð ekkert nema myrkur á skjánum. Þú syrgir. Þér batnar.
Þú hefur ekki lengur þolinmæði fyrir heiminum eins og hann hefur verið teiknaður upp af körlum. Eðlishyggja er ennþá blótsyrði í þínum munni. En núna snýrðu þér að konunum í lífi þínu. Þær hafa alltaf beðið eftir þér. Þú lærir að hlæja hjartanlega.
Þú átt eftir að vakna upp af ævilangri blekkingu um að þú getir ekki mjög mikið. Þú ert hrædd við að fæða. Þú ert hrædd við deyfingar, keisara, og að missa af. En ekkert af þessu er eins og þú heldur. Þetta eru ekki bjargbrúnir að hrapa af heldur vegalengd sem þú leggur að fótum þér. Hlæjandi og með blóðuga fætur. Þú þolir ekkert svona andlegt. En samt umbreytistu í goðmagn. Sársaukinn er ekkert fyrir þér. Héðan í frá spyrðu aldrei aftur höfuðið að því hvað þú getir. Þú spyrð líkamann. Þú spyrð legið.
Svarið er: Allt.
Þú þolir ekkert svona andlegt. En þarna ertu, að fjölfalda heiminn. Það er kraftur í þér sem gerir sprungu í tímarúmið og hleypir inn ljósi, skapar eitthvað svo fáránlega nýtt. Þú þolir ekkert andlegt. En þarna ertu: bókstafleg brú á milli lífsins og stóra tómarúmsins hinum megin.
Þau verða svo mjúk. Svo lítil að þau geta kúrt sig í handarkrikanum á þér. Úr fíngerðara efni en allir aðrir hlutir. Augun í þeim verða dimm og vitur til að byrja með. Síðan læra þau að brosa. Þeim vex hár og það verður eins og spunnið gull. Á einhvern óútskýranlegan hátt stafar birtu frá andlitinu, meira að segja í myrkri. Þau hjúfra sig og hvíla kollinn á öxlinni á þér. Leggja á þig blessun. Þú getur ekki hætt að undrast. Eitthvað fullkomlega gott er til í heiminum. Og þú bjóst það til.
Þau ætlast til alls af þér. Þau grípa í hárið á þér með músargreipunum sínum úr stáli. Augnaráðið er óttalaust. Þau eru einn stór vilji. Þau efast ekki um sjálf sig. Þau efast ekki um tilkall sitt til heimsins. Þau efast ekki um þig. Þau ætlast til alls af þér. Þau eru ágeng. Þau gera ekki málamiðlun. Treystu þeim.
Þessir dagar, sem eru ár, þeir eru skuggalöndin þeirra. Goðsögulegur tími þar sem risar arka um jörðina. Gleymdur tími svo nálægt upprunanum að náttúrulögmálin eru ekki farin að taka á sig mynd. Allt flöktir, allt er enn mögulegt. Frumefnin sveima um eins og þau eigi aldrei eftir að þéttast og breytast í eitthvað fast. En alls staðar þú: Móðirin. Utan við heiminn og samt blönduð við allt. Þú manst, það er þitt hlutverk. Manst Miklahvell, fyrsta andardráttinn og gulan brodd sem var það fyrsta sem þú gafst þeim. Þú manst skuggadagana, gleymda tímann sem börnin geyma í sér. Það er hluti af þeim sem þú þekkir en þau ekki. Hvað getur maður sagt?
Velkomin, systir. Þetta verður eitthvað.
– Birtist upprunalega í Öldu, tímariti um móðurhlutverkið