Það er á allra vitorði að stundum ber við í rás hversdagslegra og viðburðasnauðra ára að hinn mikli sérvitringur, Tíminn, geti af sér önnur ár, frábrugðin, örlát ár sem auka við sig þrettánda mánuðinum líkt og sjöttu tá á fæti af einskærum duttlungum.Við nefnum duttlunga af ráðnum huga, enda nær þrettándi mánuðurinn sjaldan fullum þroska. Eins og barn fætt af roskinni móður er hann rýr að vexti. Hann er örverpi Tímans, hálfvisinn sproti, fremur hugmynd en veruleiki.
Sök á þessu fyrirbæri eiga sumur sem hrörna fyrir aldur fram, en þrjóskast við í lostafullum dauðateygjum. Stundum ber við að ágúst sé liðinn til loka og þó haldi gamall og gildur stofnreður sumarsins áfram að geta af sér afkvæmi af gömlum vana og úr morknum viði hans spretti svokallaðir krabbadagar, illgresisdagar – þessi geldingslegu viðrini sem getin eru líkt og af hálfum huga: kyrkingslegir, tómlegir og einskisnýtir dagar – hvítir dagar sem virðast ævinlega furðu lostnir og eru gjörsamlega út í hött. Þeir spretta óreglulega og á misháum stönglum, eru formlausir og þó samstæðir líkt og fingur á hendi vanskapnings, stúfar krepptir í hnefa.
Sumir líkja þessum dögum við apókrýfur, leynilegan texta sem lætt er inn milli kaflanna í höfuðbók ársins – einskonar steinprent sem skotið hefur verið milli blaðsíðna – líkja þeim við hvítar óprentaðar arkir sem augu full af lesmáli og minnug sköpulags orða geta þakið ímynduðum litum og myndum sem smám saman blikna á auðum síðunum, ellegar notið hlutlausrar hvíldar áður en haldið er áfram að vænast nýrra ævintýra af nýjum köflum
Æ þessi gamla glunaða rómantík árstíðanna, þessi þykki og lúði almanaksdoðrant! Hann hírist einhversstaðar gleymdur og grafinn í skjalasafni Tímans, og innihaldið vex milli spjaldanna, þrútnar stöðugt af málæði nýrra mánaða, af sífrjórri lygi og slúðursögum, og af draumum sem stöðugt auka kyn sitt. Og þegar ég færi þessi ævintýri í letur, þessar endurskoðuðu frásagnir af föður mínum á margnotaðar spássíur textans, skyldi ég þá ekki ala þá lendu von í brjósti að þær muni eitt sinn hverfa að fullu niður í gulnandi síður þessarar glæstu og lúðu bókar, að þær muni sökkva í hljóðlátt skrjáf blaðanna og verða þar að engu?
Gínurnar

Stilla úr Krókódílastræti eftir Quay bræður
„Skaparinn,“ sagði faðir minn, „hafði ekki einkarétt á því að skapa, því sköpunarkrafturinn er öllum öndum gefinn. Efnið er gætt takmarkalausri frjósemi, óþrotlegum lífskrafti, og jafnframt seiðmögnuðum hæfileika til að freista okkar til frekari sköpunar. Í djúpum efnisins leynast ógreinilegar brosviprur, þar magnast spenna, og frumgerðir sköpunar myndast. Allur efnismassinn er þrunginn óendanlegum möguleikum sem fara um hann leyndum hrolli. Hann er allur á iði þar sem hann bíður eftir lífsanda skapara síns, á stöðugri hreyfingu. Hann freistar okkar með þúsundum hugljúfra og ávalra mjúkra forma sem hann í blindni sinni dreymir um.
[…]
„Efnið er auðsveipast og varnarlausast af öllu sköpunarverkinu. Allir geta elt það og mótað. Það lýtur vilja okkar allra. Þó verður það ekki mótað í eitt skipti fyrir öll, það tekur breytingum og fer auðveldlega úr böndunum. Ekkert neikvætt felst í því að breyta lífi í ný og óæðri form. Að myrða er ekki synd. Stundum er það nausynleg valdbeiting gagnvart þrjóskum og steinrunnum lífsformum sem maður hefur ekki lengur gaman af.”
Krókódílastræti – Bruno Szhulz
Krókódílastrætið
Í stórri kistu fullri af hálmi lá vesalings María, hvít eins og obláta og kyrrlát eins og hanski sem höndin hefur verið dregin úr. Og eins og til að færa sér svefn hennar í nyt talaði þögnin: gul, björt illgirnisleg þögnin hóf langt eintal, þrætti og fjargviðraðist hástöfum í ruddalegum langlokustíl. Lífsferill Maríu – hnepptur í svarthol sálar hennar – hafði yfirgefið hana og fyllti nú herbergið djöfullegum glymjanda í morgunkyrrðinni þar sem hann þyrlaðist upp af myllusteinum klukkunnar eins og mjölsáldur og tryllandi duft fyrir brjálæðinga.
Bruno Schulz, Krókódílastrætið. Þýð. Hannes Sigfússon
Blár
„Hvar er blár?“ spyr dóttir mín sem á afmæli í mars og þylur þá staðreynd eins og möntru fyrir kindina Dindil milli klukkan átta og níu á kvöldin þegar hún á að vera farin að sofa en er ekki farin að sofa: „Una afmæli MASS.“ Það þótt hún hafi ekki hugmynd um hvað mars er eða hvenær hann kemur.
Við erum að gramsa í litakassanum, sem er holur ljósbleikur kubbur úr Legolandi og hún er nýbúin að segja mér að hún ÆTLI að fá. (Hún ætlar allt þessa dagana: Ætla há mökk – Ég ætla að fá mjólk. Ætla á liglu gísúnar dövvunni – Ég ætla að sjá litlu kisurnar í tölvunni. Ætla há benúna mína – Ég ætla að fá spennuna sem mamma er með í hárinu. Ætla há ona – Ég ætla að fá svona, þegar hlutirnir sem hún ætlar sér fjölga sér hraðar en orðin sem hún á yfir þá. Það er það sem Una gerir. Hún ætlar. Nema þegar hún vill: Vittú ida dólnum – Ég vil sitja í stólnum.)
Ástæðan fyrir því að það er erfitt fyrir mig að svara spurningunni er að bláu litirnir eru tveir – reyndar þrír. Dökkblái vaxliturinn er of líkur svörtum – og reyndar fjólubláum líka – til að hún geti með góðu móti greint hann frá. Þessi ljósblái er hins vegar afbrigðilega ljós miðað við hina litina í settinu og mér finnst ég ekki geta með góðri samvisku gefið henni hann sem viðmið. Flestir bláir tónar sem hún á eftir að rekast á í lífinu eru allt öðruvísi en þessi. Ég vil ekki hætta á að rugla hana í ríminu.
„Hérna blár!“ fullyrðir hún áður en ég er búin að hugsa málið. Æi, hvílík vandræði.
„Já nei, þetta er grænblár,“ útskýri ég. Ég uppsker skilningsvana augnaráð.
„Sjáðu,“ segi ég. „Hérna.“
Hún fylgist áhugasöm með litafletinum birtast á blaðinu.
„Blár!“
„Já, grænblár,“ segi ég, þótt það komi mér á óvart hvað það er lítið grænt í honum. „Og sjáðu, hér kemur ljósblár.“
„Ós blár.“
„Og hér er dökkblár.“
„Ökk blár.“
Ánægja mín með sýnikennsluna dvínar aðeins þegar dökkblái liturinn rennur fullkomlega saman við þann grænbláa á pappírnum. En það kemur ekki að sök því dóttir mín er búin að missa áhugann á litafræðinni og farin að ganga hart að mér að teikna fyrir sig beltisdýr. Til að gera vilja sinn skýrari þrýstir hún græna vaxlitnum fast að bringunni á mér. Græni liturinn er næstum því gulur og sá eini sem heldur uppi nafni sinnar fjölskyldu í litakassanum. Eftir að beltisdýrið er komið á blað breytum við blaðinu í bát og látum hann sigla í vaskinum með playmo-dreng við stýrið. Vaxhúðin gerir það að verkum að hann flýtur mjög vel.
Þegar kvöldmaturinn er búinn og dóttir mín hálf komin í náttfötin hleypur hún ánægð á svip þvert yfir barnaherbergið.
„Fannstu blár!“ tilkynnir hún, af því að hún heldur að annarrar persónu sagnmyndirnar sem við foreldrarnir notum við hana eigi við um hana de re. Hún tekur lokið varlega af fötunni þar sem trékubbarnir eiga heima. Hún og pabbi hennar byggja rosalega turna og geta smíðað hvaða dýr sem er úr kubbunum. Oft eru kubbarnir matur handa óseðjandi dúkkustrák: bláber, brokkolí, piparkökur og plokkfiskur. Kannski hefur hún erft sköpunargáfuna hans pabba síns, kannski er hann að arfleiða hana að henni þegar þau leika sér svona.
Hún lætur ílangan bláan kubb detta ofan í fötuna og lokar vandlega. Svo kemur hún og kastar óendanlega stuttu mjúku handleggjunum sínum um hálsinn á mér.

